Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 336. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1231  —  336. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um fullnustu refsinga.

Frá allsherjarnefnd.



     1.      Við 6. gr. 3. mgr. orðist svo:
             Ríkissjóður skal bæta fangavörðum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.
     2.      Við 12. gr. bætist ný málsgrein sem orðist svo:
             Fangi sem lagður er á sjúkrahús telst taka út refsingu meðan hann dvelst þar nema hann hafi sjálfur bakað sér veikindin á ótilhlýðilegan hátt eftir að hann hóf afplánun.
     3.      Við 16. gr. 1. málsl. 2. mgr. orðist svo: Læknir skal skoða fanga við upphaf afplánunar og ef þörf krefur meðan á afplánun stendur.
     4.      Við 17. gr. 1. málsl. 3. mgr. orðist svo: Við upphaf afplánunar skal heimila fanga að tilkynna aðstandendum sínum og lögmanni um afplánunina eins fljótt og auðið er.
     5.      Við 27. gr.
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fangelsismálastofnun getur ákveðið að hluti ólaunuðu samfélagsþjónustunnar skuli felast í viðtalsmeðferð, enda nemi hún aldrei meira en einum fimmta hluta samfélagsþjónustunnar.
                  b.      2. mgr. verði 3. mgr. og orðist svo:
                     Þegar um fangelsisrefsingu er að ræða samkvæmt fleiri en einum dómi má samanlögð refsing eigi vera lengri en sex mánuðir til að hægt sé að fullnusta refsinguna með samfélagsþjónustu.
                  c.      3. mgr. verði 2. mgr. og orðist svo:
                     Þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn má heildarrefsing samkvæmt dóminum eigi vera lengri en sex mánuðir til að hægt sé að fullnusta refsinguna með samfélagsþjónustu.
     6.      Við 31. gr. 5. mgr. orðist svo:
             Þegar eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem að hluta hefur verið fullnustuð með samfélagsþjónustu eru afplánaðar í fangelsi er heimilt að veita reynslulausn af eftirstöðvunum skv. 63. gr. þannig að helmingur og tveir þriðju hlutar reiknist af óafplánuðum eftirstöðvum refsitímans.
     7.      Við 33. gr.
              a.      3. mgr. orðist svo:
                     Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi getur forstöðumaður ákveðið að heimsóknir tiltekinna manna fari fram undir eftirliti starfsmanns eða í öðrum vistarverum fangelsis, sbr. 34. og 35. gr., eða með því að banna líkamlega snertingu gests og fanga, enda sé ástæða til að ætla að heimsóknin verði misnotuð eða trufli ró, reglu eða öryggi í fangelsi.
              b.      Við bætist ný málsgrein sem verði 4. mgr. og orðist svo:
                     Forstöðumaður getur bannað tilteknum mönnum að heimsækja fanga, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um þær ástæður sem í 3. mgr. greinir. Slíka ákvörðun skal rökstyðja skriflega.
              c.      Lokamálsliður 5. mgr., sem verður 6. mgr., orðist svo: Samþykki hann það ekki má láta heimsóknina fara fram með öðrum hætti, sbr. 3. mgr., eða synja um hana, sbr. 4. mgr.
     8.      Við 36. gr. 1. málsl. 3. mgr. orðist svo: Ákvörðun um að hlusta á símtal skal tilkynnt fanga fyrir fram og ástæður hennar tilgreindar og bókaðar.
     9.      Við 40. gr. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hann á jafnframt rétt á að hafa samband við lögmann sinn með aðstoð túlks þegar þurfa þykir.
     10.      Við 45. gr. 2. málsl. 2. mgr. orðist svo: Sama gildir ef mál þar sem viðkomandi fangi er grunaður um eða ákærður fyrir slíkt brot er til meðferðar hjá lögreglu, dómstólum eða ákæruvaldi og einnig ef fangi telst síbrotamaður eða hætta er á að hann muni misnota leyfi eða reyna að komast úr landi.
     11.      Við 51. gr. Lokamálsliður 1. mgr. orðist svo: Sama á við ef rökstudd ástæða er til að ætla að fangi muni misfara með leyfið.
     12.      Við 52. gr. 1. málsl. 3. mgr. orðist svo: Fangi skal að jafnaði vera viðstaddur leit í klefa.
     13.      Við 57. gr.
                  a.      Orðin „og dagpeninga“ í 2. tölul. 1. mgr. falli brott.
                  b.      4. tölul. 1. mgr. orðist svo: Einangrun í allt að 15 daga.
     14.      Við 59. gr. 2. mgr. orðist svo:
              Þegar fangi er vistaður í öryggisklefa má nota belti, hanska og fót- og handreimar.
     15.      Við 63. gr.
                  a.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. komi þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Heimilt er að veita þeim fanga, sem ekki afplánar refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn. Þá er heimilt að veita fanga lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn, þrátt fyrir að hann afpláni refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, ef mjög sérstakar persónulegar ástæður mæla með því og framkoma og hegðun fanga í refsivistinni hefur verið með ágætum. Sama gildir liggi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að fanga verði vísað úr landi að afplánun lokinni.
                  b.      Í stað 2. málsl. 4. mgr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sama gildir þegar reynslulausn telst óráðleg vegna haga fangans eða með tilliti til almannahagsmuna, svo sem þegar hann hefur sýnt af sér mjög ámælisverða hegðun í afplánun eða er talinn hættulegur öðrum samkvæmt mati fagaðila. Nú er fanga synjað um reynslulausn samkvæmt þessari málsgrein og skal þá kynna honum hvaða skilyrði hann þurfi að uppfylla svo unnt sé að endurskoða ákvörðunina.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Nú hefur dómþoli ekki hafið afplánun og er þá heimilt að veita honum reynslulausn af refsingunni, ef hann hefur áður afplánað a.m.k. jafnlanga refsingu, og refsingin er einvörðungu vegna afbrota sem framin eru fyrir þá afplánun og hann hefur ekki verið dæmdur fyrir afbrot framin eftir að þeirri afplánun lauk. Sama gildir ef dómþoli hefur þegar hafið afplánun.